Skilmálar

Skilmáli nr. 231

Vátrygging þessi er hóptrygging sem VISS ehf. hefur samið um við Sjóvá-Almennar tryggingar hf. VISS kemur fram sem umboðsaðili Sjóvá-Almennra trygginga hf. og sér alfarið um öll samskipti og þjónustu gagnvart vátryggðum farsímaeigendum vegna framkvæmdar samningsins en Sjóvá-Almennar tryggingar hf. bera hina fjárhagslegu áhættu af vátryggingunni. Í skilmála þessum merkir hugtakið „félagið“ Sjóvá-Almennar tryggingar hf.

1. kafli: Bótasvið, bls. 1.
2. kafli: Almenn ákvæði, bls. 2.

1. Kafli - Bótasvið

1. gr. Hið vátryggða – Hver er vátryggður ?

1.1. Vátryggingin tekur til tækis þess sem tiltekið er á vörureikningi seljanda og vátryggingarskírteini, sem VISS eða söluaðili tækis afhendir til staðfestingar á vátryggingarvernd.

1.2. Hinn vátryggði er upprunalegur kaupandi tækis skv. gr. 1.1. sem við kaupin gengur  inn í hóptryggingasamning þennan milli VISS og Sjóvá-Almennra trygginga hf. gegn greiðslu iðgjalds.

1.3. Ef hið vátryggða tæki er selt er heimilt að framselja réttindi vátryggingarinnar með tilkynningu til VISS um eigandaskipti. VISS gefur út nýtt vátryggingarskírteini til nýs eiganda og telst hann þá vátryggður í stað upphaflegs kaupanda frá móttöku tilkynningar um eigendaskipti. VISS áskilur sér rétt til þess að hafna því að nýr eigandi gangi inn í hóptryggingarsamninginn og skal það þá gert sannanlega innan mánaðar frá tilkynningu. Hafni VISS nýjum eiganda kemur ekki til endurgreiðslu á þegar greiddu iðgjaldi.

2. gr. Landfræðilegt gildissvið

Vátryggingin gildir um allan heim.

3. gr. Bótasvið

Vátryggingin bætir tjón sem stafar af:

3.1. skyndilegum og óvæntum, utanaðkomandi atvikum sem gerast án vilja vátryggðs;

3.2. innbroti enda séu greinileg ummerki um innbrot á geymslustað tækis og lögreglu í viðkomandi landi tilkynnt um innbrotið innan 7 daga frá atburði;

3.3. ráni tækisins með beitingu, eða hótun um beitingu ofbeldis enda sé lögreglu í viðkomandi landi  tilkynnt ránið innan 7 daga frá atburði;

3.4. þjófnaði þegar tækið er innanklæða, í vasa eða í handtösku enda sé lögreglu í viðkomandi landi tilkynnt um þjófnaðinn innan 7 daga frá atburði.

4. gr. Undanskildar áhættur

Vátryggingin bætir ekki tjón eða bilanir:

4.1. sem kauparéttarleg krafa tekur til svo sem ábyrgð eða önnur skuldbinding framleiðanda, heildsala, smásala, viðgerðarmanns eða annars aðila og fylgir tækinu við kaupin eða fylgir samkvæmt lögum, reglugerð eða ábyrgðaryfirlýsingum;

4.2. sem stafa af eðlilegu sliti, galla, rangri samsetningu, ónógu eða röngu viðhaldi, form eða litabreytingum;

4.3. sem eingöngu hafa áhrif á útlit tækisins en ekki notagildi þess s.s. rispur;

4.4. á aukabúnaði tækis s.s. hleðslutæki, heyrnartól, handfrjálsan búnað, hulstur og þess háttar;

4.5. sem verður er vátryggður gleymir hlut, týnir hlut eða skilur eftir á almannafæri;

4.6.  ef tækið hefur verið gert upptækt eða haldlagt af stjórnvöldum eða lögreglu.

5. gr. Óbeint tjón

Vátrygging þessi bætir ekki neins konar óbein eða afleidd tjón svo sem afnotamissi, afhendingardrátt vöru eða glötunar á rafrænum gögnum.

6. gr. Almenn undanþága frá bótaskyldu

Vátryggingin bætir ekki tjón sem stafa af kjarnorku, jónandi geislun, geislavirkum efnum, styrjöldum, borgarastríði eða óeirðum. Þá bætir vátryggingin ekki tjón af völdum jarðskjálfta, eldgoss, skriðufalla, snjóflóða eða annarra náttúruhamfara.

7. gr. Uppgjör bóta

7.1. Ef tækið skemmist í bótaskyldum atburði sér VISS um viðgerð á tækinu á verkstæði sínu. Sé tækið ónýtt eða ekki svarar kostnaði að gera við það afhendir VISS annað sambærilegt tæki til hins vátryggða. Í slíku tilfelli eignast VISS tækið sem skemmdist. VISS áskilur sér einhliða rétt til að ákvarða viðgerð eða afhendingu annars tækis.

7.2. Ef bótaskylt innbrot, þjófnaður eða rán á sér stað sbr. gr. 3.2, 3.3, og 3.4 afhendir VISS annað sambærilegt tæki til hins vátryggða. Í slíku tilfelli verður hið stolna tæki eign VISS.

7.3. Með sambærilegri vöru í skilningi þessarar greinar er átt við tæki sömu gerðar sem getur verið uppgert (refurbished) en ekki nýtt. Ábyrgð söluaðila gildir á uppgerðum tækjum í sömu tímalengd eins og eftir var af ábyrgðartíma tækisins sem verið er að bæta.

7.4. Ef um bótaskylt tjón er að ræða og gert verður við tækið mun VISS lána hinum vátryggða tæki til afnota á meðan viðgerð fer fram. Þetta tæki getur verið einfaldara að gerð heldur en hið vátryggða tæki.

7.5. Aldrei er fyrir hendi réttur til greiðslu peningafjárhæðar fyrir skemmd eða horfin tæki.

8. gr. Eigin áhætta

8.1. Í hverju tjóni ber hinn vátryggði eigin áhættu sem tilgreind er í vátryggingarskírteini eða vörureikningi seljanda.

8.2. Eigin áhætta skal greidd til VISS áður en tæki er afhent eftir viðgerð eða tæki er bætt með öðru sambærilegu tæki.

9. gr. Varúðarreglur

9.1. Vátryggðum og þeim sem samsamað verður með honum ber að fara eftir þeim varúðarreglum fram koma í þessum skilmála eða á vátryggingarskírteini. Misbrestur á því getur leitt til skerðingar eða brottfalls bótaábyrgðar skv. 26. gr. laga nr. 30/2004.

9.2. Vátryggðum ber að sýna eðlilega aðgát við vörslu hins vátryggða hlutar. Vátryggðum ber að læsa tryggilega hýbýlum, bifreiðum, bátum, loftförum og öðrum sambærilegum geymslustöðum þegar þessir staðir eru mannlausir og/eða án eftirlits og sjá til þess á allan hátt að óviðkomandi eigi ekki greiðan aðgang að hinu vátryggða.

9.3. Við notkun og meðferð tækisins skal vátryggður í hvívetna fara eftir þeim leiðbeiningum sem fylgja tækinu frá söluaðila eða framleiðanda.

2. Kafli - Almenn Ákvæði

10. gr. Vátryggingartímabil – Lok vátryggingar – Endurgreiðsla iðgjalds

10.1. Vátryggingin tekur til tjóna sem verða á hinu vátryggða tæki innan þess vátryggingartímabils sem tiltekið er í vátryggingarskírteini. Vátryggingarvernd hvers þátttakanda gildir í 12 mánuði  frá kaupdegi tækisins/tryggingar og er fyrsta 12 mánaða tímabilið óuppsegjanlegt. Að því tímabili loknu endurnýjast vátryggingarverndin í aðra 12 mánuði. Hámarks vátryggingartími er 24 mánuðir frá upphaflegum kaupdegi tækisins og þegar því tímabili lýkur verður tryggingin ekki endurnýjuð frekar og tryggingavernd lokið án frekari tilkynninga. Á seinna vátryggingatímabilinu getur þátttakandi í hópnum hvenær sem er sagt sig úr honum með sannanlegri tilkynningu til VISS, með mánaðar fyrirvara miðað við mánaðarmót. Fellur vátryggingarverndin niður frá og með þeim tíma.

10.2. Verði hið vátryggða fyrir altjóni og VISS afhendir annað tæki sambærilegt hinu fyrra fellur vátryggingin niður án endurgreiðslu iðgjalds. Skal vátryggðum þá gefinn kostur á að kaupa nýja vátryggingu fyrir hið nýja tæki að gefnu samþykki Viss.

10.3. Leiði ítrekuð tjón til þess að uppsafnaður viðgerðakostnaður nemi andvirði nýs sambærilegs tækis fellur vátryggingin niður án endurgreiðslu þegar þeirri heildartjónsfjárhæð er náð.

10.4. Falli vátryggingarvernd þátttakanda niður vegna úrsagnar hans úr hópnum á seinna vátryggingartímabili tryggingarinnar endurgreiðir VISS  iðgjaldið hlutfallslega eftir því sem liðið er á vátryggingartímabilið og iðgjald hefur verið greitt.

11. gr. Greiðsla iðgjalds – Vanskil

11.1. Vátryggingarvernd þátttakanda tekur gildi við greiðslu hans á iðgjaldi fyrra vátryggingatímabilsins eða móttöku staðlaðs greiðslusamnings um iðgjald.

11.2. VISS sendir vátryggðum þátttakendum greiðsluseðil við endurnýjun eða færir nýtt ársiðgjald á staðlaðan greiðslusamning ef hann hefur verið gerður. Greiðslufrestur greiðsluseðils við endurnýjun er einn mánuður hið skemmsta frá því VISS sendi tilkynningu um greiðslu á það heimilisfang eða tölvupóstfang sem þátttakandi tiltekur við töku tryggingarinnar.

11.3. Sé iðgjald á greiðslusamning þá er greiðslufrestur hverrar afborgunar einn mánuður hið skemmsta frá því VISS sendir kröfu á greiðslusamninginn.

11.4. Sé iðgjald ógreitt þegar greiðslufresti lýkur skv. gr. 11.2 og 11.3 getur VISS sent nýja tilkynningu þar sem greiðslu er krafist innan 14 daga. Sé iðgjald ekki greitt innan 14 daga frá dagsetningu þeirrar tilkynningar fellur vátryggingin þegar niður sbr. 33. gr. laga nr. 30/2004.

12. gr. Brot á varúðarreglum

12.1. Varúðarreglur eru hátternisreglur sem settar eru í því skyni að koma í veg fyrir og takmarka tjón. Það er forsenda fyrir greiðslu bóta að settum varúðarreglum sé ávallt fylgt.

12.2. Hafi vátryggður vanrækt að hlíta varúðarreglum eða öðrum fyrirmælum í vátryggingarsamningi má lækka eða fella niður ábyrgð félagsins, sbr. 26. gr. laga nr. 30/2004.

13. gr. Vátryggjandi – Þjónustuaðili vátryggingarinnar.

Sjóvá-Almennar tryggingar hf. er vátryggjandi samkvæmt hóptryggingu þessari og ber fjárhagslega áhættu af henni. VISS er vátryggingartaki og jafnframt umsjónar- og þjónustuaðili vátryggingarinnar samkvæmt umboðssamningi við félagið. Hlutverk VISS er m.a. að hafa umsjón með því að afla þátttakenda í hóp vátryggðra og halda skrá um þátttakendur á hverjum tíma, innheimta iðgjöld, taka við tilkynningum frá þátttakendum og senda til þeirra, svara fyrirspurnumum þátttakenda og afgreiða tjón.

14. gr. Tjónstilkynning – Skyldur hins vátryggða við tjón

14.1. Ef utanaðkomandi tjón verður á tækinu skal afhenda tækið á verkstæði VISS eða samstarfsaðila sem VISS tilgreinir inn á www.viss.is, ásamt því að fylla út tjónstilkynningu. Bótaskylda er metin af VISS við skoðun tækisins og framvísun tjónstilkynningar.

14.2. Ef tjónskrafa er gerð á grundvelli innbrots, þjófnaðar eða ráns sbr. gr. 3.2, 3.3 eða 3.4 skal fylla út tjónstilkynningu og senda til VISS ásamt afriti af viðeigandi lögregluskýrslu.

14.3. Þegar bótaskyldur atburður hefur orðið eða hætta er á því að svo verði, ber vátryggðum skylda til þess að reyna afstýra eða lágmarka tjónið. Hafi vátryggður af þessum sökum orðið fyrir útgjöldum mun VISS endurgreiða þau að því leyti sem þau teljast réttlætanleg. Vanræksla í þessu efni getur valdið lækkun eða missi bóta skv. 28. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga.

14.4. Vátryggður glatar rétti til bóta ef hann tilkynnir ekki VISS eða félaginu um kröfu sína innan árs frá því að hann vissi um atvik sem bótakrafan er reist á samkvæmt 51. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Ef VISS eða félagið hafnar kröfu vátryggðs í heild eða hluta glatar hann rétti til bótanna ef hann hefur ekki höfðað dómsmál eða krafist meðferðar málsins fyrir Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum innan árs frá því að hann fékk skriflega tilkynningu VISS eða félagsins um að kröfu hans væri hafnað.

15. gr. Ásetningur

Ef tjón verður rakið til ásetnings vátryggðs fellur bótaábyrgð niður.

16. gr. Samsömum

16.1. Ef hið vátryggða er til einkaafnota getur bótaréttur skerst eða fallið niður ef maki eða sambúðarmaki vátryggðs hefur brotið gegn ákvæðum vátryggingarinnar skv. reglu b-liðar, 2. mgr. 29. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga.

16.2. Ef hið vátryggða er notað í atvinnustarfsemi getur bótaréttur skerst eða fallið niður vegna  háttsemi starfsmanna vátryggðs sbr. 3. mgr. 29. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga.

17. gr. Önnur vátrygging

Ef vátryggður á jafnframt rétt á bótum úr annarri vátryggingu vegna sama tjónsatburðar, fer uppgjör bóta eftir reglum 37. gr. laga nr. 30/2004. VISS mun þó ekki nýta sér þennan rétt ef það hefur áhrif á vátryggingakjör vátryggðs hjá tryggingafélagi hans.

18. gr. Lög um vátryggingarsamninga

Að öðru leyti, en því sem kveðið er á um í þessum skilmála, gilda um vátryggingarsamning þennan lög um vátryggingarsamninga nr. 30/2004.

19. gr. Heimili – Varnarþing – Ágreiningur

Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík. Ágreiningi um bótaskyldu má skjóta til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Upplýsingar um nefnd þessa og starfsháttu má fá hjá félaginu. Dómsmál sem kunna að rísa vegna þessa vátryggingarsamnings skulu rekin gegn félaginu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Skilmálar þessir gilda frá 01.09.2016.